top of page
Writer's pictureAnna María

Af hverju?

Af hverju geta væntanlegir píparar ekki orðið sveinar, nema að læra stærðfræði (eins og mengi t.d) sem hefur ekkert með starfið að gera?

Af hverju geta kokkar, bakarar, kjötiðnaðarfólk ekki orðið sérhæfð í sínu fagi án þess að læra ljóð?

Af hverju þurfti ég að vita hvað Foucault (1926-1984) fannst um vald ef að ég var að læra stjórnun menntastofnanna?

Af hverju erum við að leggja fyrir nemendur eitthvað námsefni sem hefur akkúrat enga tengingu við það sem þau þurfa svo að vita og kunna eftir skólagönguna.

Ég veit að þetta snýst um menntun menntunarinnar vegna og ýmsa hæfniþætti sem öllum er mikilvægt að efla. Ég veit líka að ungu fólki snýst oft hugur og ákveður að læra eitthvað allt annað en upphaflega var áætlað. En fyrir mér snýst þetta líka um markmið námsins. Ég held að við séum of föst í viðjum vanans til að þora að endurhugsa það sem gert er eða við erum búin að gleyma hver tilgangurinn var upphaflega.

Pælum aðeins í málfræðinni sem ég skrifaði um í síðasta pistli. Að vita að það er regla á bak við beygingar orða er gott og gilt en áhersla á þetta atriði er stöðugt að minnka í námskránni. Af hverju fær það þá svona mikið vægi í námsgagnaútgáfu og kennslustofum landsins? Það sem við kvörtum stöðugt yfir er að fólk kann ekki að skrifa rétt lengur. Hvernig væri að leggja höfuð áherslu á það og læða málfræðinni inn í stað þess að kenna hana eins og hún sé naut sem þarf að hafa langt frá kúnum?

Við kvörtum líka undir að unga fólkið okkar talar ekki rétt, en erum við að hjálpa þeim og kenna þeim að tala rétt? Erum við fullorðna fólkið góðar fyrirmyndir eða erum við að biðja um eitthvað sem við sjálf fylgjum ekki. Ég veit fyrir mitt leyti að ég sletti allt of mikið til að gagnrýna málnotkun annarra.

Skoðum stærðfræðina næst. Sveinar í iðngreinum þurfa oft að taka 200 áfanga (ekki fjöldi heldur nr) í framhaldsskóla til að geta útskrifast. Það er mjög misjanft hvað er kennt í þessum áfanga á milli framhaldsskóla en amk einn kennir mengjareikning. Hvað í ósköpunum hefur sú aðferð að gera með störf í iðngreinum? Af hverju getur pípulagningasveinn ekki orðið pípari ef hann kann ekki mengjareikning?

Varðandi mitt eigin nám, þá veit ég svarið við af hverju ég þurfti að lesa og læra um hvað Foucault fannst um vald. Ég spurði og fékk svar. Svarið var ekki að það væri verið að undirbúa mig undir starf sem stjórnanda menntastofunnar, heldur að undirbúa mig undir að gera eitt lokaverkefni. Námið mitt gekk sem sagt út á það.

Simon Sinek benti á að við byrjum alltaf á öfugum enda. Við byrjum á að velta fyrir okkur hvað við ætlum að gera, veltum svo fyrir okkkur hvernig við ætlum að gera það en sjaldnast pælum við í af hverju við ættum að gera það. Hann benti á að það er best að byrja á því síðasta og vinna okkur að þvi fyrsta. Af hverju eiga t.d. nemendur að gera það sem við biðjum um? Ef við getum ekki svarað því, hver er þá tilgangurinn? Er það af því að aðalnámskrá segir það? Er það venja? Á nemandinn bara að gera þetta af því að kennarinn ákvað það? Hver eru markmiðin með þannig námi? Ef ég væri menntamálaráðherra myndi ég spyrja þessar spurninga. Af hverju er námi sett upp eins og það er sett upp?

Það er þessa dagana talað um að stokka allt menntakerfið upp. Ég er sammála því. En til þess að það sé hægt, þarf að vera fólk við stjórnvölinn sem veit hvað það er að gera.Ekki afturhaldsseggir, ekki fólk sem talar út úr ras... á sér, heldur fólk sem er af gólfinu, hefur brennandi áhuga á menntamálum og veit hvað þarf. Mér hefur þótt miður undanfarin ár að heyra hvernig slæm ráðgjöf sem ráðherrar fá, kemur beint út úr munninum á þeim á fyrirlestum. Þetta er lítið land, þessi geiri er enn minni og skoðanir þeirra sem hæst hafa, eru svo áberandi fyrir vikið. Ég er sjálf mjög skoðanaglöð þegar kemur að menntamálum og hef oft samband við bæði MMS og MRN. Í eitt skipti þegar ég var að hlusta á fund starfsmanna þarna, heyrði ég nánast lesið orðrétt úr tölvupósti sem ég hafði sent. Auðvitað er ég ekki að segja að þetta hafi verið slæmur póstur eða tillaga mín eitthvað bull, en það var sérstakt að heyra opinbera starfsmenn nota mínar hugmyndir og gera að sínum. Ég er kona og ætti því kannski bara að þegja og vera ánægð að það er verið að hlusta á mig og kannski kom þessi tillaga ekki bara frá mér, hvað veit ég. Tillagan er einföld. Ég vil ekki að nemendur séu stjörnumerktir. Ég vil að allar faggreinar (fyrst að það þarf að nefna þær) séu fyrir 1. stig, 2. stig og 3. stig. Þannig getur nemandi sem kemur til landsins verið á 3. stigi í stærðfræði og lokið því en verið á 1. stigi í íslensku. Nemendur sem klára grunnskóla á 1. eða 2. stigi segir miklu meira um þá nemendur heldur en að gefa þeim D eða einhverja bull stjörnumerkta einkunn. Ég spyr í einfeldni minni, af hverju færast nemendur á milli markmiða fyrir 4. bekk (eins og þetta er núna) upp í markmið fyrir 7. bekk ef að þau eru ekki búin að ná hinum?

Af hverju? ætti að vera það sem drífur okkur áfram. Að segja við nemendur sem skilja ekki af hverju þau þurfi að læra ljóð í verknámi að þau þurfi að ná íslensku, er ekki gott svar og útskýrir ekki af hverju nemandinn þarf að læra þetta. En það er alveg svar ástæða fyrir því að ljóðaskilningur er gagnlegur fyrir öll og ChatGPT kom með ágætis útgáfu sem hefði verið hægt að nota með nemendum t.d. í vélvirkjun: Nemendur í vélvirkjun læra um ljóð af ýmsum ástæðum sem snerta víðari færni en tæknilega þekkingu. Ljóð geta hjálpað til við að þróa hæfni í túlkun, tjáningu og sköpunargáfu, sem nýtist víða í lífi og starfi. Í ljóðalestri þurfa nemendur oft að kafa dýpra og túlka undirliggjandi merkingu eða tilfinningar, sem bætir hæfni þeirra til að greina og hugsa gagnrýnið – eiginleika sem eru verðmætir í tæknilegum greinum.

Auk þess tengist ljóðrænn skilningur oft því að þroska næmni og sjónarhorn, eiginleika sem geta hjálpað vélvirkjanemendum að sjá lausnir á nýjan hátt eða nálgast vandamál með skapandi hugsun. Í verktækni snýst margt um nákvæmni og smáatriði, og með því að læra um ljóð læra nemendur að meta fegurð í smáatriðum og aðra sjónarhorn sem auka víðsýni.

Ég spurði gervigreindina líka hvort að menjareikningur gæti verið gagnlegur fyrir pípara og fékk gott svar: Já, pípulagningamenn þurfa oft að kunna grunnatriði mengjareiknings, sérstaklega þegar kemur að útreikningum og að greina tengsl milli mismunandi pípu- og rörkerfa. Mengjareikningur nýtist í stærðfræði til að skilja sambönd milli safna, og hann getur verið gagnlegur í flóknum uppsetningum þar sem pípulagnir þurfa að tengjast kerfum eða undirkerfum á mismunandi hátt.

Til dæmis gæti pípulagningarmaður þurft að greina hvaða pípur eiga að tengjast við ákveðin kerfi eða að greina tengsl milli mismunandi píputenginga. Með þekkingu á mengjareikningi geta þeir skipulagt kerfi og reiknað út vatnsflæði, þrýsting og stærðir tenginga. Þetta er oft mikilvægt í stærri kerfum eins og í byggingum, iðnaðarbúnaði og vatnsveitum, þar sem nauðsynlegt er að tryggja að öll kerfi virki saman á réttan hátt.

Er þetta ekki ágætis ástæða fyrir að kenna ljóð og eða mengjareikning í iðn- og verkgreinum? En af hverju er þetta ekki svarið sem kennarar nota til að útskýra ástæðuna, frekar en að nemendur eigi að ná íslensku- eða stærðfræðiáfanganum? Líkleg skýring er að það vantar skýr markmið með kennslunni, amk skýr markmið fyrir öll í tímanum og það vantar að spyrja sig af hverju áður en nemendur hefja nám til að hægt sé að útskýra það fyrir þeim þannig að þau skilji.




1 view0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page