GDPR eru nýju persónuverndarlögin sem Evrópusambandið setti á nú í maí og við höfum tekið upp hér á Íslandi. Lögin eru að mestu sanngjörn þó að vissulega valda þau mörgum stofnunum og fyrirtækjum mikilli vinnu. Þau hafa líka áhrif á ýmislegt innan skólanna. Allar opinberar stofnanir og fyrirtæki þurfa að fara yfir hvernig þau verja persónugreinanlegar upplýsingar og þau þurfa að veita okkur upplýsingar um það sem skrifað er um okkur. Það var kominn tími til að reglur væru settar um þennan rafræna heim sem við lifum í og þess vegna ber að fagna þeim, þó að við verðum að breyta ýmislegu varðandi eigin netnotkun.
Lögin taka yfir meðhöldun á:
Nöfnum
Myndum
Netföngum
IP addressum
Banka- og öðrum persónugreinanlegum upplýsingum
Upplýsingum sem tengjast heilsu manna
Notkun pósta á samfélagsmiðlum
Allt annað sem gæti verið notað til að persónugreina fólk.
Helsta breytingin hér er að við eigum að hafa aðgang að öllu því sem er skrifað um okkur. Í Danmörk hafa danir upplýsingar úr læknaskýrslum á lokuðu vefsvæði og geta lesið allt sem skrifað er um þá þar. Þetta gæti komið hér í kjölfar laganna. Það gæti þó verið áhyggju efni þar sem sífellt er verið að brjótast inn og ræna upplýsingum, en það er samt eðlilegt skref miðað við þessi lög. Svo er spurning hvort að tekjublaðið fræga sem kemur út einu sinni á ári sé ekki orðið ólöglegt og öll birting skattstjóra á gögnum um tekjur okkar.
Í skólunum erum við yfirleitt ekki að birta nöfn nemenda, netföng þeirra, ip adressur eða annað sem gæti verið persónugreinanlegt á opinberum vettvangi. Við höfum þó birt af þeim myndir bæði á samfélagsmiðlum og vefsíðum. Nú þarf til þess samþykki bæði barns og forráðamanns. Það er líka góð regla (og núna lög) að maður birtir ekki myndir eða upplýsingar um aðra án þeirra samþykkis hvort sem er á opinberum vettvangi eða á samfélagsmiðlum. Ég hef oft komið í skóla erlendis þar sem myndataka af nemendum er bönnuð og þannig hefur það verið lengi.
En það sem við notum í skólunum eru hin ýmsu forrit þar sem við skráum inn upplýsingar um nemendur, netföng þeirra og setjum jafnvel inn myndir og upplýsingar á lokuð svæði án þess að gera okkur grein fyrir hvort að myndirnar og upplýsingarnar séu þannig komnar í eigu annarra en okkar og gæti birst aðilum sem eiga ekki að hafa aðgang að þeim. Þessu þurfum við í skólunum að breyta og vanda okkur vel þegar að þessu kemur.
Í námskránni góðu er rætt um að við eigum að kenna nemendur að virða höfundarréttarlög og setja upp skv. viðurkenndum kvarða. Skv. nýju GDPR lögunum bera skólar núna ábyrgð á því að þessu sé framfylgt í hvívetna. Nemendur eða kennarar mega ekki nota myndir af netinu án þess að virða höfundarrétt og skrá það rétt. Þetta er mikilvægt að muna.
Mér skyldst líka að við megum ekki nota lokuð svæði til að skrifa um nemendur. Allt sem við skrifum á að birtast þeim og foreldrum þeirra. Ef að við viljum skrifa inn í dagbók nemenda í t.d. Mentor, verðum við að vera meðvituð um að nemandinn getur lesið það sem um hann er skrifað.
En allt þetta getur haft þau áhrif að sum forrit sem við höfum verið að nota eða viljum nota í framtíðinni og eru ekki örugg skv. þessum nýju reglum, eru ekki aðgengileg hér í Evrópu. Það eru ekki öll fyrirtæki í öðrum álfum sem telja það svara kostnaði að fara í viðeigandi breytingar á þeirri þjónustu sem þeir veita á meðan fleiri álfur hoppa ekki á sama vagn.
Við verðum líka að passa að fara ekki langt yfir strikið og í gír sem jaðrar við móðursýki. Formaður skólastjórafélagsins sagði fyrir framan hóp af kennurum að þeir ættu að tilkynna í hvert sem sem einhver mögulega sér einkunn og nafn á blaði sem tilheyrir nemenda. Ég veit ekki alveg hvernig það ætti að vera vandamál, nema að sá sem sjái það, hafi eitthvað illt í hyggju. Hefur einhver lent í slíku?
Við kennarar ættum svo að kynna okkur vel hvað stafræn borgaravitun gengur út á og hvað það þýði fyrir börn og unglinga að skilja eftir sig rafræn spor sem eru jafnvel af okkar völdum en ekki þeirra val. Ef að við skiljum þetta vel og getum komið nemendum í skilning um þetta, verða þessi lög (sem eru mjög eðlileg á tímum mikilla tækniframfara) eitthvað sem að verður sjálfsagt fyrir okkur að framfylgja og þykja bara hið besta mál.
Á þessari síðu SAFT er hægt að lesa smá útskýringu á hvað stafræn borgaravitun er: https://saft.is/stafraen-borgaravitund/
Comments