Undanfarið hafa fulltrúar bekkjanna í 8. og 9. bekk hitt mig á vikulegum fundum. Ég var með 10. bekk inni í þessu verkefni líka, en ákvað að sleppa þeim enda minni áhugi á að þróa grunnskólastarfið hjá þeim en hinum tveimur aldurshópunum. Við byrjuðum á samfélagsfræðinni og ég átti frábærar umræður um hæfniviðmið almennt og svo hin flóknu hæfniviðmið sem tilheyra því fagi. Það var ýmislegt sem við áttum erfitt með að skilja, hjá nemendum var það oftast orðalagið, en mér fannst þessi hæfniviðmið ekki í neinu samræmi við það sem ég þekki úr erlendum tungumálum. Þessi hæfniviðmið eru stýrandi og segja kennurunum nákvæmlega hvað þeir eigi að kenna.
Nemendur mínir komu með nokkrar góðar tillögur. Ein var að við myndum setja þennan texta á "mannamál" og nemendur myndu staðsetja sig á þessum langa lista þannig að þeir vissu hvar þeir væru sterkir og hvar þeir þurfa frekari þjálfunar við. Þeir ræddu um að við værum ekki að uppfylla þessi viðmið nema að mjög litlu leyti. Þeir vildu meiri rökræðu í skólann (sem er hluti af hæfniviðmiðunum), þjálfun í gagnrýnni hugsun og verkefni sem ganga út frá meiri skilning á mismunandi aðstæðum barna um allan heim. Einnig vildu þeir meiri kynningu og fleiri verkefni sem kenna þeim áhrif trúariðkunar á þjóðfélög manna, helstu áherslur mismunandi trúarbragða og hvernig trúarbrögð eru oft notuð í slæmum tilgangi. Hæfniviðmið sem segir að nemendur eigi að beta "beitt hugtökunum kyn, kynhneigð og kynhlutverk og útskýrt hvaða hlutverki þau þjóna í kyngervi einstaklinga og sjálfsmynd" höfðaði til þeirra og svo hæfniviðmið sem snýr að fjármálalæsi. Annað fannst þeim ónauðsynlegt eða skrítið. Það var þarna eitt sem þeir bentu mér á sem snýr að því að nemendur í grunnskólum geti útskýrt trúarlegar vísanir og tjáningu í listum og bókmenntum. Þetta er hæfniviðmið sem mér finnst alls ekki við hæfi í grunnskóla og hafa ósköp lítið að gera með hæfni sem nemendur þurfi að hafa á 21. öld. Ef að þeir vilja síðar meir læra bókmenntir eða listir, má alveg segja að þetta gæti verið góð hæfni, en hún er varla nauðsynleg á þessu skólastigi. Vonandi verða þessi hæfniviðmin tekin, þeim fækkað og þau endurorðuð til að vera meira í takt við annað í aðalnámskrá. Henni er ekki ætlað að vera svona stýrandi.
Í næstu viku kynna þeir vinnuna sína fyrir kennurunum sínum, sem svo (vonandi) taka þetta með inn í kennsluáætlanir í þessu fagi. Ég afhendi nemendum svo við lok síðustu viku næstu hæfniviðmið til að skoða og það eru hæfniviðmiðin fyrir erlend tungumál. Þegar ég afhendi þeim blaðið spurði einn nemandinn "hvar er restin af þessu?" Sem betur fer eru þessi hæfniviðmið í allt öðrum dúr en þau sem við vorum að vinna með.
Comments