Það er ekkert lítið verið að gagnrýna menntakerfið og þá sérstaklega grunnskólana þessi misserin. Sumt er alveg réttmætt, eins og að það hafi ekki verið neitt kerfi sem metur stöðu nemenda. Ekki að ég sé hrifin af gömlu samræmdu prófunum, alls ekki. En mér finnst vanta matskerfi sem metur hvort að einstaka nemandi sé að sýna framfarir á eigin forsendum óháð landsmeðaltali.
Annað sem er gagnrýnt er t.d. árangur á PISA prófinu. Ég hef alveg skrifað um það áður en þetta próf eitt og sér ekki góður mælikvarði á hæfni nemenda. Ég hef setið yfir þessum prófum og veit að mörgum nemendum finnst tilgangslaust að taka það, lesa spurningarnar eða yfir höfuð taka þetta próf alvarlega. Niðurstöðurnar hafa engin áhrif á þeirra stöðu sem nemandi. Ef ég ætti að taka að mér ólaunaða vinnu í amk klukkustund til þess að þjóðin geti vitað hvernig hún er að standa sig varðandi notkun á WD40 myndi ég ekki leggja neitt á mig. Það væri tilgangslaust framtak af minni hálfu og mér gæti ekki staðið meira á sama. Þeir sem óska eftir að fá niðurstöðurnar fyrir sína skóla vita að þetta tilgangsleysi er ein af ástæðunum að við komum illa út, en þeir vita líka að niðurstöður þeirra skóla segja ekki nema hálfa söguna. Þetta próf er í mörgum bitum og á meðan sumir eru spurðir um heimilisaðstæður eru aðrir það ekki. Á meðan sumir fá erfiðar stærðfræðispurningar, fá aðrir þær ekki. Þessi tegund af prófi virkar þannig að x margir taka prófið, z margir fá sömu spurningarnar og út frá þessu z fjölda er ályktað að x sé í sömu stöðu. Kannski voru aðrir í x hópnum sem hefðu getað svarað spurningu betur en þeir sem fengu hana, en það er enginn að velta því fyrir sér. Pisa gengur út á að meta heilbrigði íslenska menntakerfisins ekki einstaka nemendur.
Læsi og hugtakaskilningur er slæmur skv. Pisa. Ég trúi því alveg að hluta en ég held ekki að 30% drengja geti ekki lesið sér gagns og þarna komum við að heilbrigði kerfisins. Ef að bílprófið væri notað til að endurskoða lestrarhæfni drengja, myndum við sjá að staðan er ekki svona slæm. Hún er ekki góð samt. Íslenska bókmenntaþjóðin er ekki bókmenntaþjóð lengur. Það eru sívaxandi fjöldi heimila þar sem ekkert er lesið. Nemendur sem eru vanir þvi að það er lesið fyrir þau (sem er mjög víða) læra ekki að efla seiglu í læsi. Af hverju er verið að lesa fyrir þau ef að þau kunna að lesa? Er markmiðið að nemendur geti nýtt sér það sem er í bókinni í frekari vinnu, eða eiga þau kannski bara að svara spurningum upp úr henni? Læsið sjálft er ekki markmið í þannig kennslu. Ég held að þarna liggi vandinn og hann er nátengdur slæmri útkomu íslenskra nemenda í hugtakaskilningi. En þetta á ekki bara við um nemendur. Ég hef oft fengið kvartanir yfir lengd FB færslna eða þessa bloggs frá fullorðnum. Fullorðnir sjá öll þessi orð og nenna ekki að lesa. Meira að segja hámenntað fólk. Þannig að vandamálið eru ekki bara börnin, heldur er þetta samfélagslegt vandamál. Ekki að mér finnist að allir eigi að lesa það sem ég skrifa, heldur er það lýsandi að kvarta yfir þessu við mig.
Það eru til fjölmargar bækur og greinar sem tala um það sem virkar til náms. Ég sem kennsluráðgjafi verð of sjaldan vör við að þær aðferðir séu notaðar. Að fá suma kennara til að vera með skýr markmið með kennslunni sinni getur verið áskorun, en líka að þessi markmið verði sýnileg og skiljanleg nemendum. Nemendur verða að fá að vita af hverju þau eru mætt í tímann og af hverju þau eigi að gera verkefnið sem fyrir þau er lagt. Til þess að þetta sé mögulegt þarf að sjálfsögðu kennarinn fyrst og fremst að vera með skýr markmið þegar hann skipuleggur tímann. Skýr námsmarkmið eru aldrei blaðsíður í bókum!
En hvað segja sumar af þessum greinum að virki? Leiðsagnarnám virkar ef að það er allt í gangi. Ef að kennarar eru með markmiðin á hreinu, en nota ekki verkfæri til að gera nemendur sjálfstæða í náminu (eins og námsfélaga, námsveggi...), eru ekki með góða endurgjöf í tímanum eða annað sem tilheyrir þessari aðferð, þá er þetta ekki leiðsagnarnám. Það þarf allt að vera til staðar. Ég hitti skólastjóra fyrir nokkrum árum og spurði hana hvort að það væri leiðsagnarnám í hennar skóla. Hún sagði það vera, en bara smá. Þannig að ég sagði henni að Shirley Clark hafi gefið út að ef að það væri ekki allt í gangi, þá væri það ekki leiðsagnarnám. Þá svaraði skólastjórinn að það væri ekki leiðsagnarnám í hennar skóla... sem er í Reykjavík. Reykjavík hefur verið að eyða miklum fjármunum í leiðsögn (t.d. í gegnum menntastefnuvefinn) og var með fulltrúa á sviðinu sem hafði það hlutverk að hjálpa skólum að innleiða leiðsagnarnám. Af hverju er þá ekki leiðsagnarnám í gangi í einum skólanum þar, ef það er trú sveitafélagsins að aðferðin virki?
Annað sem virkar skv. rannsóknum er Endurheimt (retrieval). Það er ágætis grein um það í Lifandi vísindum, en það eru rannsóknir á bak við þetta sem styðja að nám eigi sér stað ef við gefum heilann tíma til að tileinka sér það sem við viljum að nemendur læri, en ekki að kenna þeim allt á stuttu tímabili. Við notum þetta oft í okkar námsferlum hjá Ásgarði. Við byrjum með námsmarkmið og ákveðin hugtök sem við viljum að nemendur tileinki sér. Svo vinna þau með fjölbreytt verkefni sem styðja við hugtökin og gefa nemendum færi á að nota þau á fjölbreyttan hátt. Það virkar sem nám. Það sem væri gott ofan á þetta er að vinna aftur síðar með sömu hugtökin og aðferðirnar í fjölbreyttum verkefnum.
Þessa dagana er ég að gera námsferli fyrir unglinga sem telja það vera íslenskunám að læra málfræði. Þau telja það vera hið eina sanna íslenskunám og kvarta við skólastjóra yfir því að fá ekki málfræðibækurnar sem þau þekkja. Þau hafa verið að læra námstækni, þau eru í mörgum og mismunandi ritunarverkefnum, þau eru að læra málfræði og íslensk orð og hugtök í gegnum leiki og þau eiga að vera að lesa bækur og vinna með þær (verkefni sem heitir (Bókaklúbbur).Þau tengja ekki við neitt af þessu og stór hluti þeirra sagðist ekki ætla að lesa bók, þau eru ekki vön að þurfa að gera það (skv. þeim). Þannig að til að ná til barnanna, ákváðum við að leggja áherslu á málfræði, en bara fyrir þau. Málfræðiviðmiðin í aðalnámská eru mörg hver tæknileg og önnur bara skrýtin. Í endurskoðuðum hæfniviðmiðum t.d. fyrir unglingadeild er eingöngu eitt hæfniviðmið fyrir málfræðikennslu. Þannig að nemendur sem fá mikla málfræðikennslu, eru líklega ekki að uppfylla markmið menntayfirvalda. Við viljum hins vegar tengja við nemendurna en líka nota aðferðir sem virka og ég hef verið að nota þessa Endurheimt við gerð ferlisins.
Ég gerði það þannig að nemendur taka stutt forpróf til að kanna hvaða undirstöðu þau hafa í mismundi orðflokkum. Prófunum er skipt niður í nafnorð og töluorð, lýsingarorð, sagnorð og svo eitt sem eru hugtökin sem við ætlum að vinna sérstaklega með eins og fallbeyging, stigbreyting...
Eftir hvert próf (orðflokk) er verkefni. Eftir nafnorð og töluorð er bingóverkefni sem nemendur leysa í litlum hópum. Eftir sagnorðaprófið er endurritun á sögu þar sem nemendur vinna saman að því að endurskrifa textann út frá ákveðnum viðmiðum sem þau voru að vinna með í könnunum í sagnorðum, nafnorðum og töluorðum. Þau lesa svo söguna upp fyrir hópinn og útskýra hverju þau breyttu og hvernig. Þannig smá saman gefum við nemendum færi á að endurheimta það sem við viljum að þau kunni. Þetta eru unglingar, þannig að þau eiga að hafa ákveðinn grunn í málfræði og þekkja því hugtökin. Þegar þau hafa tekið flest prófin (3stk) þá fá þau handbók sem eru glærur sem innihalda m.a. svörin við því sem fram kom í könnunum. Þau gera svo tvö verkefni eftir það og taka fjórðu könnuna sem eru hugtökin. Að þessu loknu fá þau allar prófspurningarnar og eiga að vinna í hópnum að leysa þær á eigið blað. Það blað taka þau með sér í hið raunverulega próf. Próf sem segir til um hvað nemendur hafa lært á þessu ferli þar sem þeim hefur verið gefið tækifæri til að endurheimta það sem þau kunna og sífellt nýta það sem þau höfðu lært áður eða voru að læra í verkefnunum. Þau hafa fengið að vita stöðu eigin þekkingar (sem er m.a. mikilvægt í leiðsagnarnámi), þau hafa fengið tækifæri til að nota hugtökin sem þau eiga að læra í samvinnu og kynningum og þau vita við lokin hvernig þeim tókst að bæta hæfni sína. Ef að eitthvað stendur út af, hefur kennarinn tækifæri til að vinna með það, áður en lengra er haldið. Það má heldur ekki gleyma því að nemendur fengu með þessu tækifæri til að hafa áhrif á eigið nám og þó að ég sé ekki sammála þeim um mikilvægi þessarar hæfni, þá kom ég til móts við þeirra óskir.
Þetta var nefnilega bara grunnurinn eða það sem ég kallaði 1.stigs málfræði. Eftir þetta fá þau handbækur (glærur) fyrir 2. stig og 3. stig. Nemendur fá þá val um að vinna annað hvort málfræðiverkefni á 2. stigi eða 3. stigi. Þau mega gera öll verkefnin, en það er óþarfi að nemendur sem sýna góða hæfni í þessu séu að vinna með atriði sem þau þekkja vel. Þau hafa báðar handbækurnar hjá sér en þau þurfa bara að taka þessi forkönnunar próf og gera verkefnin sem eru á því stigi sem þau hafa valið. Í lokin er skapandi verkefni og lokapróf. Skapandi verkefni eins og að gera kennslumyndband um hætti sagna eða annað sem nemendur kjósa að gera en nota til þess sköpunarhæfni. Varðandi lokaprófið fá sumir A próf (stig 1 og 2) aðrir fá B próf (1-3 stig). Nemendur sem taka B prófið hafa tækifæri til að sýna A hæfni skv. matsviðmiðum, hin ekki, enda hafa þau ekki lært allt sem hægt var að læra (eins og atviksorð) og það er von mín að það mikið nám hafi átt sér stað í þessari vinnu að þau telji sig hafa sjálftstraust til að nýta það sem þau hafa lært í framtíðinni og biðji ekki um fleiri málfræðiverkefni.
Í anda aðferðinnar, munum við svo viðhalda hugtökunum, setja þau inn í samræður í bekknum og í vor gera nemendur lokaverkefni þar sem þau gera grein fyrir öllu því sem þau hafa lært, m.a. málfræðinni og sýna í verkefninu hversu langt þau hafa náð. Samhliða þessu verkefni ætlum við að kynna nýtt námsmat sem er notað í Skóla í skýjunum. Að ósk nemenda í þeim skóla fá þau A-D námsmat en ekki bara mat á hæfniviðmiðum. Við köllum þetta ástundun. Nemendur fá lista yfir verkefni sem þau eiga að skila í ferlinu, að þau séu metin fyrir þátttöku í samvinnuverkefnum (jafningamat), sjálfsmatið þeirra og hvernig þeim gekk yfirhöfuð að vinna verkefnin. Geri þau þetta allt fá þau A og sú einkunn fer á matsblað sem fer heim til þeirra. Þetta er náttúrulega ekkert annað en að nemandinn sé að sýna að hann hafi hæfni til að bera ábyrgð á eigin námi. Eitthvað sem tengist lykilhæfninni. Hvort þau geri allt rétt eða ekki, er aukaatriði. Það sem skiptir máli er að þau taki þátt, geri verkefnin og viti að þau stýra eigin framförum, ekki kennarinn. Þetta námsmat fer ekki með þeim inn í framhaldsskóla, en þetta hefur skilað framförum í þátttöku nemenda í verkefnum og tímum þar sem þetta hefur verið notað. Reyndar er það þannig að nemendur í Skóla í skýjunum eru með nemendastýrð viðtöl með forráðamönnum eftir hverja 6 vikna spönn og þurfa þar að gera grein fyrir af hverju þau eru ekki með t.d. A námsmat í ástundun og þau hafa tækifæri til að bæta sig fyrir næsta viðtal.
Ef einhver er enn að lesa, þá held ég að það sem skipti helst máli fyrir nemendur, ef að við viljum framfarir, sé að kennarinn sé fókuseraður á framfarir hvers og eins og hann noti aðferðir sem hann veit að virka (í dag, ekki í gamla daga). Að lesa sama textann aftur og aftur, skilar ekki árangri skv. rannsóknum, heldur að vinna með efni hans á fjölbreyttan hátt og yfir lengra tímabil. Ég vil ekki að nemendurnir sýni mér bara að þau geti gert málfræðiverkefni í bók eða á blaði, ég vil að þau noti árangursríkar aðferðir til að viðhalda þekkingunni sinni í langan tíma.
Comments