Ég er svo heppin að vinna hjá fyrirtæki sem gefur mér tækifæri til að skoða kennslu mjög víða um land. Það hefur verið haft á orði að ég sé í verklegri landafræðikennslu, því að ég er algjör rati þegar ég er að ferðast. Ég veit ekki hvað sveitarfélögin heita sem ég á að heimsækja og ég veit aldrei hvaða leið ég er að keyra. Sem betur fer fann einhver upp GPS.
En á þessu brölti mínu hef ég hitt hundruði kennara síðan í haust. Það er að síast inn að námsefni Menntamálastofnunnar er ekki endilega besta kennsluefnið en það er pínu spes að þegar ég hef orð á því, þá kinka margir kolli, sem þó samt finna enga leið út úr bókunum. Kennarar eru hræddir um að ef að þeir kenni ekki Stiku 1A og 1B í 5. bekk, þá verði ekki hægt að kenna nemendum Stiku 2A og 2B í 6. bekk. Ég hef sjálf heyrt kennara tala um að ákveðnir hópar séu "bók á eftir", sem þýðir að þeir þurfi að klára ákveðna bók til að hægt sé að kenna næstu bók. Þetta eru alltaf bækur sem Menntamálastofnun gefur út og þær stýra kennslunni sem fram fer.
Svo kemur ytra matið. Ytra mat er framkvæmt af Menntamálastofnun. Ef að nemendur eru að vinna of mikið í kennslubókum og eyðufyllingum eða kennari er með innlagnir, þá er talað um fræðandi kennslustundir í ytra matinu. Ef að nemendur aftur á móti fá að stjórna t.d. afurðum, eru sjálfir að leita að heimildum og svoleiðis, þá er talað um leiðbeinandi kennslustundir. Markmið yfirvalda er að það séu fleiri leiðbeinandi kennslustundir en fræðandi. Þannig ef að kennari er fastur í að klára bækurnar sem Menntamálastofnun gefur út, þá eru þeir ekki að uppfylla markmið Menntamálastofnunar. Þetta er svolítið eins og köttur að elta eigið skott.
Það má því ekki vera þannig að bækur stýri kennslunni en þær eru flott ítarefni. Við í Ásgarði höfum verið að aðstoða skóla við að finna leið út úr þessum ógöngum og það sem við gerum er að samþætta öll fög (og lykilhæfnina) og notum ákveðnar blaðsíður úr bókum MMS til að halda fókus á viðfangsefnunum nemenda, þjálfa lestur, glósutækni og annað.
Commentaires