top of page
Writer's pictureAnna María

Næstu skref OECD

Þegar breytingar eru yfirvofandi í skólakerfinu er ágætt að stoppa og ígrunda af hverju við erum að gera það sem gerum. Fyrir hvern erum við að mennta börn? Er það fyrir þau, næsta skólastig, fyrir samfélagið eins og það er núna eða fyrir þau og samfélagið í framtíðinni.

Þó að einhverjir gætu haldið það, þá fann núverandi menntamálaráðherra ekki upp á stefnunni um farsæld, heldur er þetta stefna frá OECD sem kallast Wellbeing. OECD kom líka að gerð menntastefnu ríkisins, eins og það gerir í mörgum öðrum löndum. Breytingar þurfa að byggja á rannsóknum, stöðu samfélaga og greiningu á framtíðarþörfum samfélaga og einstaklinga. Börn í dag eru ekki eins og börn voru og okkur mun aldrei vera ágengt ef að við ætlum að troða þeim í kassana sem við, sem eldri erum, var raðað í. Við breytum ekki bara til að breyta, heldur af því að það er þörf fyrir breytingarnar. OECD hefur metnað og fjármagn til að stuðla að þeim breytingum sem þarf. Fyrsta flokks skólaþróun væri líklega of há fjárhagsleg byrði á okkar litlu örþjóð og því er þetta alls ekki neikvætt. Við lærum af því sem aðrir hafa reynt og stefnum í eina sameiginlega átt. Við erum öll hluti af sömu jörðinni og bæði fólk og samfélög hafa sömu grunnþarfir. Heimsmarkmið og Barnasáttmáli SÞ koma líka inn í þessa umræðu ásamt stefnu UNESCO í menntamálum. Ef að breytum engu eða breytum of hægt, verðum við hægt og hljótt samfélag sem fylgir ekki þróun í síkvikum heimi og þá er ekki von á góðu. Við erum aldrei að fara til baka.

Ástæða þess að ég skrifa þetta er að það stendur yfir umsagnarferli í samráðsgátt vegna breytinga á hæfnviðmiðum aðalnámskrá grunnskóla. En þegar breytingar eiga sér stað, sem eru ekki í samræmi við t.d. menntastefnu ríkisins eða stefnu aðalnámskrár sem er ansi skýr á að grunnþættir menntunar og lykilhæfni sé sú hæfni sem eigi að fléttast inn í alla kennslu, þá er ágætt að horfa á hvert við stefnum næst. Það má alveg gefa sér að OECD muni hafi eitthvað um það að segja.

Árið 2018 startaði OECD endurskoðun á áherslum sambandins (og þar á meðal PISA) sem kallast PISA High Performing Systems for Tomorrow (HPST). Þetta ber með sér grundvallarbreytingu á markmiðum náms. Nú ætla ég ekki að segja að þær hugmyndir sem eru uppi núna, verði það sem stýrir síðar en það eru teikn um að svo verði, því að þetta er sett fram að ósk þjóða eins og Finnland og Singapore sem skora vel á þessum prófum. Þessar þjóðir og fleiri hafa óskað eftir endurskoðun á Pisa prófinu og það vill svo skemmtilega til að það er íslendingur sem fékk það verkefni að aðstoða sambandið. Sá íslendingur er Kristján Kristjánsson heimspekingur. Stefnan kallast á ensku Education for Human Flourishing (ég ætla ekki að reyna að þýða það) og ber með sér grundvallarbreytingu á markmiðum náms. Þarna er verið að leggja áherslu á heildræna lausn fyrir skóla og menntakerfi þar sem lykilhæfni er þróuð áfram, nám verður einstaklingsmiðaðra en það er núna til að mæta þörfum fjölbreyttra nemenda og það samþættist tækni og tækniþróun. Þetta ákvæði er t.d. mjög mikilvægt því að það vita allir sem vilja vita það að gervigreindin er komin til að vera og það er okkar að læra að nýta hana og byggja hana upp, þannig að hún hafi ekki neikvæð áhrif á líf okkar og þeirra sem á eftir okkur koma.

Það eru þrjú lykilviðmið sem þessi stefna gengur út á að við eflum í skólum og það eru (á ensku aftur) adaptive problem-solving, ethical decision-making, and aesthetic appreciation.

Lykilhæfnina þarf því að efla í skólum, ekki hæfniviðmið faggreina. Það voru mistök við endurskoðunina að flétta henni ekki inn í öll fög eða bara sleppa því að faggreinaskipta hæfnviðmiðum. Ef að nemendur geta rökstutt það sem kennari vill að þau læri, er það hæfni sem á við um flestar faggreinar. Ef að kennari vill að nemandi geti tjáð hugsanir sínar, sýnt þrautseigju í náminu og sýnt siðferðilega hæfni í samskiptum, þá á það líka við um allar greinar. Kerfið þarf ekki að ákveða að nemendur eigi að læra eitthvað ákveðið, við höfum ekki hugmynd um hversu lengi það verði nauðsynleg þekking að hafa. Kennari á að geta þjálfað hæfni sem nýtist nemendum til framtíðar, hæfni sem gerir þeim kleift að læra að læra og sýna 21. aldar hæfnina sem við eigum að vera að efla með þeim. Þekkingin sem þar liggur að baki er ekki eins mikilvæg í stóra samhenginu.

Ástæða þess að þessar fyrrnefndu þjóðir óskuðu eftir áherslubreytingu er einmitt að það er markmið menntakerfa að þjálfa hæfni nemenda til framtíðar, eða eins og Andreas Schleicher menntastjóri OECD skrifaði fyrir mörgum árum, að mennta nemendur fyrir þeirra framtíð en ekki okkar fortíð.

Þeirra framtíð er samofin gervigreind og það er mjög ljóst af bæði umræðum hérlendis og erlendis að skólakerfið þurfi að gera betur til að mæta öllum nemendum. Ef að við viljum vera tilbúin fyrir þessi framtíðarstef, þá þurfum við í sameiningu að eiga samtal um hvað sé í raun gæða kennsla til framtíðar sem nýtist nemendum okkar.

Þetta þýðir líka að starfsþróun kennara þarf að snúast um þetta atriði. Þeir þurfa að hafa hæfni til að bjóða upp á vel skipulagt nám með skýrum markmiðum, hafa verkfæri/þekkingu til að bjóða upp á sveigjanlegt nám fyrir öll, með áherslu á stafrænt læsi, eflingu leiðtogarhæfni nemenda og þau sjálf þurfa að hafa getu til að vinna með öðrum að því að byggja upp námsumhverfi fyrir alla nemendur þar sem þau geta vaxið og dafnað út frá eigin forsendum og öll hafi tækifæri til að sýna framfarir í námi án þess að það hafi neikvæð áhrif á samskiptahæfni þeirra eða líðan.

Ég er spennt fyrir þessari framtíðarsýn, ég vona að þú sért það líka.


Fjórar leiðir sem OECD er að velta fyrir sér að geta verið menntastefna til framtíðar. https://www.youtube.com/watch?v=WbE-cSsvneY



6 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page