Eins og fram hefur komið er ég í stjórnendanámi við Háskóla Íslands. Ég er með diplómu í kennsluréttindum en ekki meistarapróf og það er eitthvað sem er bersýnilega nauðsynlegt til að fá að komast í atvinnuviðtöl. Þannig ég ákvað að taka þessa leið og hélt að þetta nám myndi gefa mér betri skilning á því sem fram fer í skólum og öll því sem stjórnendur eru að kljást við dag frá degi. En ég er búin að komast að því að það er alrangt.
Ég er í tveimur fögum. Annað eru félagfræðilegar kenningar í heimspeki og menntun, hitt er stjórnun menntastofnanna. Síðara fagið er mun gagnlegra en hitt. Ég komst þó að því við verkefnaskil að ég á ekki bara að svara spurningum sem settar eru fram, heldur þarf ég að passa að hafa greinaskil rétt sett upp og annað slíkt. Ég var ekkert að hugsa um það þegar ég skrifaði pistilinn. En nú veit ég betur. Ég á að fara í próf þessu fagi í desember!!!
Hitt fagið er ekki eins gagnlegt að mínu mati eins og sagði frá í annarri færslu. Ég er vissulega að læra um John Dewey og Basil Berstein sem eru miklir frumkvöðlar í skólastarfi, en ég lærði allt um þá í fyrra námi. Hinir, eins og Foucoult og heilmikil fræðsla um kvenréttindabaráttu svarta kvenna á 19. öld og hugtök sem tengjast henni. Það hefur ósköp lítið að gera með hvernig skólar virka á Íslandi. Ég fór svo í krossapróf í gær úr öllu þessu efni. Hér er ein spurningin:
Hver eftirfarandi fullyrðinga samræmist best þeim skilningi Foucault á valdi sem kemur fram í síðari verkum hans (Tanner-fyrirlesturinn og síðari skrif)?
Veldu eitt: a. Rannsókn á valdatengslum í stofnunum á borð við skóla myndi fyrst og fremst lúta að skertu frelsi nemenda til að ráða námi sínu sjálfir. b. Rannsókn á valdatengslum í stofnunum á borð við skóla myndi fyrst og fremst lúta að beinni valdbeitingu starfsfólks gagnvart nemendum. c. Rannsókn á valdatengslum í stofnunum á borð við skóla myndi fyrst og fremst lúta að þeirri ögun við hlutlægar (skynsamlegar) viðmiðanir sem nemendur sæta og áhrif þess á mótun sjálfs þeirra. d. Rannsókn á valdatengslum í stofnunum á borð við skóla myndi fyrst og fremst lúta að misjafnri getu nemenda eftir félagslegum bakgrunni þeirra til standast valdbeitingu starfsfólks.
Miðað við fræðin eru amk tvær þarna sem eru rangar en það eru tvær fullyrðingar þarna sem gætu vel verið réttar að mínu mati. Mig minnir að ég hafi hitt á rétt svar hérna. En hvað kenndi það mér að taka þetta próf? Ekkert. Ég lærði um flott fólk en ég var orðin svo kolrugluð á öllum þessum kenningum og hugtökum að ég var farin að blanda öllu saman. Eftir stendur það sem ég vissi fyrir, að John Dewey og Basil Berstein eru með kenningar sem mér líkar við og vil skoða betur. Ég sendi póst á forseta deildarinnar og spurði hana hver tilgangur með þessu fagi er og fékk þau svör að þetta væri til að undirbúa mig undir að gera meistaraverkefnið og að reyndar allt námið mitt sé til að hjálpa mér að gera meistaraverkefni. Ég fjalla ekki um nema einn punkt í mínu verkefni (það er ekki hægt að fjalla um allt) og mitt verkefni verður kannski ekki eitthvað sem er endilega gríðarlega gagnlegt fyrir stjórnanda (ég veit ekki hvað það verður ennþá, en hef hugmyndir) þannig að skv. þessu er ansi fátt í þessu námi sem mun undirbúa mig undir að vera stjórnandi ef að ég ákveð að fara þá leið. Það er kannski ekki skrítið að það er erfitt að fá fólk til að fara í nám í þessari deild ef að námið á eingöngu að vera fræðilegt en lítið sem ekkert hagnýtt. Svona var kennsluréttindanámið mitt ekki við HÍ ekki á sínum tíma. Það var svo miklu hagnýtara en það sem ég er nú að fást við.
Ekki misskilja mig, þó að ég sjái ekki endilega tilganginn með efninu, þá þætti mér þessi tími sem hefur þó farið í þetta vera fínn ef að ég hefði bara í framhaldinu fengið að velja mér einn þessara fræðimanna og fjalla nánar um hann. Ég hefði þó getað tekið þá ákvörðun eftir að hafa horft á nokkur Youtube myndbönd. Eftir prófið er hópaverkefni. Ég er með nokkrum ungum stelpum í hóp og við völdum Dewey. Við getum lítið fundað nema á netinu þar sem ein eða tvær búa úti á landi. Ég hef lesið undanfarin ár að próf (og sérstaklega krossapróf) séu úrelt matsleið. Hún æfir hæfni í að muna í smá tíma og svo er það gleymt. Ég er í námi á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og finnst að þeir ættu nú að vita þetta og innleiða nútímalegra námsmat.
Comments