Nú eru nemendur að skila inn síðustu skýrslum vegna þemanáms í samfélagsfræði sem þeir höfðu fjórar vikur til að klára. Ég hef útskýrt út á hvað þessi verkefni ganga í öðru bloggi en mig langaði að bæta við því sem nemendur sögðu að loknu verkefninu. Auðvitað voru nokkrir sem voru ekki ánægðir með þetta. Verkefnið er svo langt út fyrir þægindaramma hins meðal nemanda að það væri óeðlilegt annað. Nemendur vilja flestir vera með innfyllingarbækur og skýr skilaboð. Það gerir námið svo auðvelt, en málið er bara að það vex ekkert innan þægindarammans og því er mikilvægt að ýta nemendum út úr honum.
Það voru nokkur verkefni og kynning á þeim sem stóðu upp úr í mínum huga. Eitt var verkefni um hlýnun jarðar. Þegar nemendurnir hófu sína kynningu sögðust þau hafa haldið að þeir væru bara að fara að gera skólaverkefni í samfélagsfræði, en þeir hafi lært að þetta væri svo miklu meira en það. Þetta væri eitthvað sem þeir þyrftu að huga að alla ævi. Annar hópur var með lýðræði og jafnrétti. Sá hópur útbjó borðspil með yfir 75 spurningum sem allar tengjast viðfangsefninu. Hópurinn sótti um styrk til jafnréttis- og mannréttindaráðs Kópavogs og fékk smá styrk til að gefa spilið út. Við fengum líka mörg myndbönd og eru sum þess eðlis að það væri vel hægt að nota þau í kennslu. Það var t.d. eitt sem mér er minnistætt um ástæður hlýnunar á jörðinni og það var útskýrt svo vel að ég hef sjaldan skilið vandamálið betur. Við fengum líka nokkrar bækur og eru sumar einnig gríðarlega fróðlegar og gætu hæglega verið ítarefni í frekari verkefnum nemenda skólans. Eitt myndbandann sem við fengum var um fátækt. Það má geta þess að nemendur í þeim bekk höfðu spurt mig í upphafi verkefnisins hvort að það væri alveg öruggt að börn á þeirra aldri myndu geta ráðið við svona verkefni. Eitt af verkefninum sem kom frá hópnum var gríðarlega flott listaverk sem sýnir misskiptingu auðs í heiminum, eitt mjög innihaldsríkt fréttablað og svo meðfylgjandi myndband um fátækt. Ég hef mikla reynslu af svona verkefnum en það kemur mér alltaf á óvart hversu hæfileikaríkir nemendur eru þegar við gefum þeim tækifæri til að vinna með verkefni innan eigin áhugasviðs.
Hér er myndband um fátækt: https://www.youtube.com/watch?v=Pztw0jOi04g&feature=youtu.be
og hér eru myndir: https://photos.google.com/share/AF1QipNjL45vFt-Jqds2bv-1pEbh5S0NkezWcwpDrp308tyHfORAXfuCsQPZjCBExCYYTQ?key=WmRYNFlBT1pvRFpFaGNuSmNMSHFlNkRzemJIRkhn
Comments